

Julian Nagelsmann, landsliðsþjálfari Þýskalands, hefur staðfest að Kai Havertz hafi orðið fyrir bakslagi í bataferlinu eftir hnéaðgerð sem hann gekkst undir í upphafi tímabils.
Framherjinn meiddist í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst og þurfti að fara í minni háttar aðgerð, sem hefur haldið honum utan liðs Arsenal síðan þá.
Mikel Arteta hafði vonast til að fá leikmanninn aftur í hópinn fljótlega eftir landsleikjahléið í nóvember.
Nagelsmann var þó með aðra tímalínu í huga og sagði á þriðjudag að Havertz hefði lent í „minni háttar bakslagi“ á síðustu vikum. „Kai fékk lítið bakslag, en í heildina gengur honum vel,“ sagði hann.
Fyrrum stjóri Bayern München bætti við að hann telji Arsenal líklega geta notað Havertz undir lok ársins.
Þar með virðist ljóst að endurkoma Þjóðverjans tefst um nokkrar vikur, sem er ákveðið áfall fyrir Arsenal sem hefur saknað fjölhæfni hans í fremstu víglínu.