Það er allt undir í Garðabæ á sunnudag þegar Breiðablik heimsækir Stjörnuna í Bestu deild karla. Um er að ræða úrslitaleik um Evrópusæti.
Stjarnan er þremur stigum á undan Blikum og með betri markatölu, græna liðið úr Kópavogi þarf tveggja marka sigur til að ná Evrópusætinu.
Stjarnan hefur gefið eftir síðustu vikur og rætt var um það í Þungavigtinni í dag.
„Ég var að garfa í gögnunum, Stjarnan árið 2023 fékk 46 stig, 2024 fengu þeir 42 stig. Þeir eru með 42 stig núna og einn leikur eftir,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í þættinum.
Kristján heldur því fram að lið Stjörnunnar í ár sé miklu dýrara en árin á undan. „Búnir að skora færri mörk en 2023 og 2024, þetta lið í ár er að lágmarki 60 til 70 milljónum króna dýrara en þessi lið.“
Mikael Nikulásson sérfræðingur þáttarins telur að starf Jökuls Elísabetarsonar sé í hættu ef Stjarnan nær ekki Evrópusæti. „Ég spyr mig miðað við það sem hefur gerst hjá Breiðablik, er að gerast hjá Val og FH. ÉG myndi telja það að ef Breiðablik vinnur Stjörnuna með tveimur mörkum á sunnudag, þá er Stjarnan með versta tímabilið af þessum efstu liðum.“