Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur Kobbie Mainoo, 20 ára miðjumaður Manchester United, þrjá valkosti ef hann ákveður að yfirgefa félagið í janúarglugganum.
Mainoo, sem átti stórt hlutverk undir stjórn Erik ten Hag og skoraði meðal annars í bikarúrslitum gegn Manchester City í maí 2024, hefur fengið minni spilatíma hjá nýja stjóranum Ruben Amorim.
Portúgalinn hefur treyst á Casemiro og Bruno Fernandes á miðjunni og ekki byrjað Mainoo í fyrstu sex leikjum tímabilsins.
Daily Mail greinir frá því að þrjú stórlið fylgist grannt með stöðu leikmannsins: Napoli á Ítalíu, Real Madrid og Atlético Madrid. Mainoo er samningsbundinn United út 2027 en er sagður opinn fyrir láni eða sölu ef staðan batnar ekki.
Framtíð Amorim gæti einnig haft áhrif á málið, en BBC segir Sir Jim Ratcliffe, eiganda United, ætla að gefa honum heilt tímabil til að sanna sig.