Knattspyrnudeild FH og Heimir Guðjónsson hafa komist að samkomulagi um að Heimir láti af störfum í lok keppnistímabilsins, þegar samningur hans rennur út. Þessi tíðindi hafa í raun legið í loftinu en eru nú staðfest af FH.
Heimir tók við FH á ný fyrir tímabilið 2023, þegar liðið var í miklum vandræðum og fallbaráttu árið áður. Hefur hann skilað liðinu í efri hluta Bestu deildar karla þrjú ár í röð.
Heimir náði svo auðvitað frábærum árangri með FH á árum árum og gerði liðið til að mynda að Íslandsmeistara sex sinnum.
Tilkynning FH
Knattspyrnudeild FH og Heimir Guðjónsson hafa komist að samkomulagi um að Heimir láti af störfum í lok keppnistímabilsins, þegar samningur hans rennur út.
Heimir tók við þjálfun FH á ný eftir erfitt tímabil árið 2022 og fékk það verkefni að koma á stöðugleika hjá félaginu. Undir hans stjórn hefur liðið síðustu þrjú ár tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar, í samræmi við markmið félagsins.
Ferill Heimis hjá Fimleikafélaginu er einstakur. Hann hefur bæði sem leikmaður og þjálfari markað djúp spor í sögu FH og á hann svo sannarlega heiðurinn af fjölmörgum af stærstu augnablikum félagsins. Hann er einn af sönnum Risum FH.
Félagið vill þakka Heimi fyrir ómetanlegt framlag og einstakt samstarf í rúm 25 ár. Við óskum honum velfarnaðar og hamingju á nýjum vígstöðvum – og vitum að hann á alltaf heima í Kaplakrika.
#TakkHeimir