Tyrell Malacia hefur verið kallaður aftur inn í aðalliðshóp Manchester United og fær þar með tækifæri til að endurvekja feril sinn hjá félaginu.
Hinn 26 ára gamli vinstri bakvörður var hluti af hópi leikmanna sem æfði ekki með aðalliðinu í sumar og var skilinn eftir þegar United fór í æfingaferð til Bandaríkjanna. Ruben Amorim, stjóri liðsins, sagði þá að allir leikmenn hópsins, þar á meðal Marcus Rashford, Jadon Sancho, Antony og Alejandro Garnacho hefðu viljað yfirgefa félagið.
Rashford og Sancho fóru á lán til Barcelona og Aston Villa, á meðan Antony og Garnacho gengu í raðir Real Betis og Chelsea í varanlegum félagaskiptum.
Malacia reyndi einnig að komast burt en tilraun til að fara á lán til Elche á Spáni klikkaði á lokadegi gluggans. Möguleg yfirfærsla til Tyrklands, þar sem glugginn lokaði 12. september, varð heldur ekki að veruleika.
Hollendingurinn æfði um tíma einn á meðan hann leitaði að félagaskiptum en hefur nýverið verið hluti af U-21 liði félagsins á Carrington æfingasvæðinu.
Nú hefur Amorim aftur tekið Malacia inn í aðalliðið og gæti hann fengið tækifæri á ný með rauðu djöflunum á komandi vikum.