Besta deild karla er ekki beint þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum traustið og var komið inn á þetta í Innkastinu á Fótbolta.net.
Þar benti Valur Gunnarsson á að Heimir Guðjónsson þjálfari FH hafi talað um að hann væri að spila á ungum leikmönnum eftir jafntefli við Stjörnuna á dögunum.
„Heimir talar um að hann sé að byggja upp á ungum mönnum. Meðalaldurinn er 26 ára í liðinu. Hvað er ungur leikmaður á Íslandi?“ spurði Valur í þættinum.
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, tók þá til máls. „Leikmenn eru ungir á Íslandi þangað til þeir verða 25 ára,“ sagði hann.
Telur Elvar að hér á Íslandi sé of mikið horft í að menn séu orðnir nógu gamlir og benti hann á að Lamine Yamal, einn besti leikmaður heims, væri 18 ára.
„Ef að Yamal væri að spila á Íslandi væri hann bara á bekknum. Manni finnst eins og það sé svolítið bara verið að velja kennitöluna,“ sagði Elvar, þó í gamansömum tón.