Aron Sigurðarson hefur verið frábær fyrir KR frá því hann kom heim úr atvinnumennsku undanfarin tvö ár. Gengi liðsins hefur þó ekki dansað í takt.
Annað árið í röð er KR í fallbaráttu en staðan nú virðist alvarlegri en í fyrra. Liðið er hreinlega í fallsæti þegar fjórum umferðum er ólokið.
Liðið tapaði 4-2 gegn KA fyrir norðan í gær. Aron var besti maður Vesturbæinga og skoraði bæði mörkin, kunnuglegt stef.
„Nennir hann þessu? Sama hvort þeir halda sér uppi eða ekki, hann er of góður. Hann er 31 árs,“ velti Albert Brynjar Ingason upp í Dr. Football.
Jóhann Már Helgason sagði að önnur lið hljóti að taka stöðuna á Aroni, sem er samningsbundinn KR út næstu leiktíð, í vetur.
„Hann er búinn að fórna tveimur árum í einhverja þvælu. Hann labbar inn í hvert einasta lið í þessari deild. Það hljóta einhver lið að tékka,“ sagði Jóhann áður en Albert tók til máls á ný.
„Það kæmi mér lítið á óvart ef hann er bara kominn með nóg af þessu. Alltaf langbesti maðurinn en þeir fá ekkert fyrir það.“