Luis Enrique, þjálfari Paris Saint-Germain, leitar nú í óhefðbundnar leiðir til að gera sitt lið enn betra og sækir innblástur úr ruðningi.
Í 2-0 sigri PSG gegn Lens á sunnudag ákvað Enrique, 55 ára, að yfirgefa hliðarlínuna og fylgjast í staðinn með fyrri hálfleiknum úr fjölmiðlaboxinu á vellinum.
Hann sneri aftur niður á bekkinn í síðari hálfleik, en eftir leikinn útskýrði hann ákvörðunina og vísaði til þess að hann hefði séð ruðningsþjálfara beita svipaðri aðferð.
„Í dálítinn tíma hef ég verið að fylgjast með ruðningsþjálfurum sem greina leiki frá allt annarri sjónarhæð,“ sagði Enrique við blaðamenn.
„Mér líkar þessi möguleiki til að bæta leikinn okkar. Ég vildi fylgjast með fyrri hálfleiknum úr stúkunni og það er stórkostlegt. Það er öðruvísi. Ég get haft yfirsýn yfir allt.“
Hann sagðist sjá leikinn betur og geta lagað hlutina með leikmönnum sínum í hálfleik.