KR tapaði 0-7 í lokaumferð hefðbundins Íslandsmóts gegn Víkingi í gær. Liðið tapaði með sama mun í lokaumferðinni fyrir 22 árum síðan og fengu á baukinn frá núverandi þjálfara liðsins, Óskari Hrafni Þorvaldssyni, í kjölfarið.
Víkingur lék sér að KR í gær og skellti sér á topp deildarinnar. KR er á sama tíma í bullandi fallbaráttu, með 21 stig í tíunda sæti og aðeins 3 stigum frá fallsvæðinu fyrir tvískiptingu deildarinnar. Þá á Afturelding í sætinu fyrir neðan leik til góða.
Það var aðeins annað uppi á tengingnum 2003. Þá hafði KR þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en tapaði síðustu tveimur leikjum sínum, og þeim síðasta stórt gegn FH, 7-0. Þarna var Óskar Hrafn Þorvaldsson, nú þjálfari KR, íþróttafréttamaður á DV.
„KR-ingar eru Íslandsmeistarar og venju samkvæmt fyllilega verðskuldað. Það er þó staðreynd í dag að enginn man eftir Íslandsmeistaratitlinum. Slæleg frammistaða Íslandsmeistaranna í síðustu leikjum mótsins hefur stolið senunni,“ skrifaði Óskar í pistli eftir leikinn við FH, sem hefur vakið athygli á samfélagsmiðlinum í X eftir að hann birtist þar í gær.
„Þeir þjást af einhverjum þeim alverstu timburmönnum sem um getur í sögunni og það sorglegasta var að leikmenn liðsins virtust lítinn sem engan áhuga hafa á því að hysja upp um sig brækurnar.
Lokaleikurinn gegn FH var mönnum þar á bæ til háborinnar skammar og með ólíkindum hvernig lið eins og KR getur dottið niður á slíkt plan. Leikmenn liðsins voru með hugarfar sigurvegara fram til 1. september – eftir það með hugarfar þeirra sem hafa engan metnað,“ skrifaði Óskar einnig um KR-liðið 2003.
Seinast þegar KR tapaði 7-0 pic.twitter.com/iHBJE9NtK2
— Freyr S.N. (@fs3786) September 14, 2025