fbpx
Laugardagur 13.september 2025
Eyjan

„Fram til þessa hafa engar kynstaðfestandi skurðaðgerðir farið fram hjá skjólstæðingum barna- og unglingageðdeildar undir 18 ára aldri“

Eyjan
Laugardaginn 13. september 2025 11:00

Alma Möller, heilbrigðisráðherra

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverð umræða hefur verið um málefni trans fólks undanfarið og má til að mynda vísa í umræður í Kastljósi á dögunum þar sem Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, fór mikinn eins og frægt varð.

Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segir í aðsendri grein sem birtist á Vísi í morgun að greinilegt sé á umræðunni að töluvert skorti á þekkingu fólks varðandi það hvernig heilbrigðisþjónustu við transfólk sé háttað. Segir Alma að hér á landi sé meðferðin í föstum skorðum og leitast sé við að veita örugga meðferð sem byggir á bestu þekkingu með stuðning og ábyrga upplýsingagjöf í öndvegi.

Kynin séu fleiri en tvö

„Trans fólk hefur auðvitað alltaf verið til en með öflugri og fallegri réttindabaráttu hinsegin fólks hafa sömuleiðis orðið framfarir í mannréttindabaráttu trans fólks þó enn sé langt í land og bakslagið því miður sorgleg staðreynd. Umræða um hvort kynin séu aðeins tvö á ekki við í nútímasamfélagi og almennt er viðurkennt að fjölbreytileiki kyntengdra einkenna, kynvitundar og kynhneigðar sé mikill og í líkingu við róf.

Árið 2019 voru samþykkt lög um kynrænt sjálfræði sem skilgreina réttindi trans fólks. Þar segir m.a. að sérhver einstaklingur njóti, í samræmi við aldur og þroska, óskorðaðs réttar til að skilgreina kyn sitt og sjálfræðis um breytingar á kyneinkennum. Í lögunum er kveðið á um að á stærstu og sérhæfðustu heilbrigðisstofnun okkar, Landspítala skuli starfa teymi sem skipuleggi og veiti þá heilbrigðisþjónustu sem þörf er á. Transteymi Landspítala eru tvö, fullorðinsteymi og barnateymi auk sérstakts teymis um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni (intersex einstaklingar),“ skrifar Alma.

Segir Alma að þrátt fyrir þjónustan sé sífellt að eflast og sérþekking að myndast þá sé enn of löng bið eftir hormónameðferðum og skurðaðgerðum. Þá fer hún yfir starf fullorðinsteymis sem veitir skjólstæðingum, 18 ára og eldri, upplýsingar, ráðgjöf og meðferð.

„Unnið er með leiðsögn frá erlendum verklagsreglum sem eru í samræmi við bestu þekkingu og reynslu. Mikil áhersla er lögð á sálfræðiþjónustu, stuðningsviðtöl, aðstandendaviðtöl og ráðgjöf fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þá sinnir teymið yfirgripsmiklu fræðslustarfi m.a. til annarra deilda spítalans og í námi heilbrigðisstétta.

Fjöldi tilvísana hefur verið 120-140 á ári sl. ár og er biðtími eftir teyminu um tveir mánuðir en lengri bið er eftir sérhæfðri meðferð. Meðferðin er einstaklingsmiðuð og mikil áhersla lögð á að upplýsa um áhættu og fylgikvilla sem fylgt getur meðferð. Hormónameðferð er sinnt af sérfræðingum á því sviði og er eftirfylgd minnst árlega. Bið er enn eftir brjóstnámsaðgerðum en um flóknari aðgerðir eru samstarf við sjúkrahús erlendis,“ skrifar Alma.

Mun varfærnari nálgun þegar börn eiga í hlut

Nálgunin sé þó mun varfærnari varðandi börn sem eru yngri en 18 ára.

„Teymið veitir börnum yngri en 18 ára, sem upplifa misræmi milli kynvitundar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu, meðferð í samræmi við þarfir auk stuðnings og ráðgjafar við forsjáraðila. Þjónustan snýst um að veita börnunum öruggt skjól til þess að kynnast kynvitund sinni. Áhersla er á að efla geðheilsu hópsins og styrkja sjálfsmyndina auk þess sem sálfélagslegri meðferð er sinnt. Að sjálfsögðu er farið að íslenskum lögum og öll þjónustan snýst um góða klíníska starfshætti. Ef þörf krefur er samstarf til staðar við erlenda sérfræðinga. Upplýsts samþykkis er aflað hjá öllum skjólstæðingum fyrir kynstaðfestandi inngripum og gæði þess metin með sérstakri aðferðafræði. Lyfjameðferð er ekki notuð nema að vandlega yfirlögðu ráði. Greining sýndi að miðgildi við upphaf hormónablokkmeðferðar var 16,2 ár og við upphaf krosshormónameðferðar 17,1 ár. Fram til þessa hafa engar kynstaðfestandi skurðaðgerðir farið fram hjá skjólstæðingum barna- og unglingageðdeildar undir 18 ára aldri en samkvæmt lögunum koma þær þó til greina hjá 16 ára og eldri,“ skrifar Alma.

Hún bendir á að fjöldi tilvísana í barnateymið hafi náð hámarki árið 2022 og verið þá 60 talsins sem endurspeglaði uppsafnaða þjónustuþörf. Þá sé talið er að trans einstaklingar séu um 0,3% íbúa sem komi vel heim og saman við fjölda skjólstæðinga barnateymisins. Tilvísunum fari heldur fækkandi og voru á síðastliðnu ári 46 talsins.

Hvetur til stillingar í opinberri umræðu

Alma fer einnig yfir stöðu mála í löndunum í kringum okkur til samanburðar og bendir til að mynda á að umræður og gagnrýni sem hefur litið dagsins ljós í Bretlandi sé fjarri íslenskum raunveruleika. Þá hvetur hún stillingu í opinberri umræðu.

„Trans einstaklingar þurfa að glíma við margs konar og krefjandi áskoranir. Einhverjir efast um tilvist þeirra og telja óráð að sjálfsákvörðunrréttur þeirra sé virtur. Þau mæta fordómum, þrýstingi og skoðunum úr ýmsum áttum. Þar að auki er meðferðin erfið og bið eftir henni jafnan umtalsverð. Þá flækir það myndina að margir trans einstaklingar eru einnig með raskanir á borð við einhverfu, kvíða- og lyndisraskanir sem oft má rekja til samfélagslegrar stöðu trans fólks sem upplifa fordóma og skömm. Loks tekur langan tíma að efla skilning og þekkingu okkar hinna. Barnateymið hefur bent á að umræða síðustu mánaða um tilvist, réttindi og velferð trans fólks hafi haft neikvæð áhrif á öryggi og líðan skjólstæðinga og fjölskyldna þeirra. Það er afleitt og því mikilvægt að allir sýni nú stillingu í umræðunni,“ skrifar heilbrigðisráðherrann.

Þá sendir hún stuðningskveðju til trans fólks og áréttar að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur standi með þeim.

Hér má lesa grein Ölmu Möller í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Forseti hefur lög að mæla – fólk vill ekki endurtekna gíslatöku á Alþingi

Orðið á götunni: Forseti hefur lög að mæla – fólk vill ekki endurtekna gíslatöku á Alþingi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Það skiptir máli hverjir stjórna – berin eru súr, sagði Mikki refur

Orðið á götunni: Það skiptir máli hverjir stjórna – berin eru súr, sagði Mikki refur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Brynjar er einsamall í hópferð erlendis – „Fullkomlega stjórnlaust“

Brynjar er einsamall í hópferð erlendis – „Fullkomlega stjórnlaust“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Breytingar í framkvæmdastjórn Póstsins – Eymar og Benedikt ráðnir

Breytingar í framkvæmdastjórn Póstsins – Eymar og Benedikt ráðnir
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna
Eyjan
Fyrir 1 viku

María Mjöll afhenti Macron trúnaðarbréf sitt

María Mjöll afhenti Macron trúnaðarbréf sitt