„Ég titraði og skalf allan leikinn upp í sófa,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen fyrrum fyrirliði Íslands um leik landsliðsins gegn Frakklandi á þriðjudag. Eiður ræddi málið í hlaðvarpinu Dr. Football í dag.
Synir hans, Andri Lucas og Daníel Tristan Guðjohnsen voru báðir í byrjunarliði Íslands í leiknum þegar Ísland tapaði 2-1.
Andri skoraði mark Íslands í leiknum og skoraði annað mark seint í leiknum sem virkaði löglegt en dómari leiksins dæmdi af.
„Svekkelsið, ég segi bara ennþá að við gerðum jafntefli við Frakka á útivelli,“ segir Eiður.
Eiður segir að ekkert í andliti Andra hafi bent til þess að hann hefði brotið á sér yfir markið. „Ekki í andlitinu á honum, og ekki á Konate heldur. Hann var ekki að kvarta, ef þú sérð fyrir aftan markið. Hann er bara í áfalli, það var bara Mbappe sem var að kvarta.“
Eiður segir að íslenska liðið hafi átt stigið skilið. „Ég sé ekki mörg lið í þessum riðli fara þangað og sækja stig. Miðað við það sem við lögðum í leikinn, þá áttum við skilið að jafna.“
Daníel Tristan er 19 ára gamall leikmaður Malmö og var þarna að byrja sinn fyrsta A-landsleik. „Ég fékk í magann þegar ég sá að hann var að byrja, mér fannst hann komast rosalega vel frá sínu hlutverki. Þeir bræður gerðu það báðir.“