Víðir Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, er eins og flestir Íslendingar ósáttur við að jöfnunarmark Íslendinga gegn Frökkum í fyrrakvöld hafi verið dæmt af.
Íslenska liðið virtist ætla að sækja stig á útivelli þegar Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt annað mark. Var það dæmt af fyrir afar litlar sakir með VAR og urðu lokatölur leiksins 2-1 fyrir Frakka.
„Hversu langt á VAR að ganga? Er ásættanlegt að mörk í fótboltaleikjum séu dæmd af vegna lítilsháttar snertingar? Snertingar sem viðkomandi leikmaður fann ekki fyrir og hafði engin áhrif á leikinn.
Þetta var það sem gerðist á Prinsavellinum í París í fyrrakvöld þegar jöfnunarmark Andra Lucasar Guðjohnsens var tekið af íslenska landsliðinu rétt fyrir leikslok gegn Frökkum. Kylian Mbappé fyrirliði Frakka krafðist þess að dómarinn færi í skjáinn, löngu eftir að hann hafði bent á miðjupunktinn og íslenska liðið hafði fagnað markinu góða stund,“ skrifar Víðir í blað dagsins.
„Dómarinn hlýddi stórstjörnunni, sá að Andri hafði komið örlítið við treyju Ibrahima Konaté í baráttu þeirra um boltann, rétt áður en hann skoraði markið, og taldi það næga ástæðu til að dæma markið af. Við mikla ánægju 40 þúsund áhorfenda í París. Sennilega var enginn meira hissa á þessu en Konaté sjálfur sem hafði legið eftir, svekktur yfir því að fá á sig mark. Datt ekki í hug að mótmæla.“
Víðir bendir á að svona komi upp oft í hverjum leik.
„Svona snertingar eins og hjá Andra gagnvart Konaté eiga sér stað 50 sinnum í hverjum leik. Nokkur slík tilvik eiga sér stað í hvert einasta skipti sem hornspyrna er tekin. Fótbolti er ekki leikur án snertinga. Leikmenn eru í stöðugum návígjum og ef dæma ætti aukaspyrnu í hvert sinn sem hægt er að merkja að treyja mótherjans hefði verið snert værum við komin í allt aðra íþrótt. Viljum við það?“