Ben White, varnarmaður Arsenal, lýsir nýjum liðsfélaga sínum, Viktor Gyökeres, sem „algjöru skrímsli“ og einn mesta atvinnumann sem hann hefur æft með.
Sænski framherjinn er aðeins búinn að vera í nokkrar vikur hjá Arsenal eftir 63,5 milljón punda félagaskipti frá Sporting, og er þegar kominn með tvö mörk á nýjum heimavelli.
White og Gyökeres voru einnig samherjar hjá unglingaliði Brighton, og segist enski landsliðsmaðurinn fullviss um að Viktor muni slá í gegn í Norður-London.
„Hann er skrímsli. Hann lifir fyrir mörkin, er sífelld ógn,“ sagði White í viðtali við opinberu heimasíðu Arsenal.
„Þú vilt alls ekki lenda á vegi hans, hann ýtir þér bara til hliðar og heldur áfram.“
„Hann er svo stór og sterkur og það skiptir miklu máli að hann hafi áður spilað í enskum fótbolta. Margir koma í ensku úrvalsdeildina og hafa ekki fengið að kynnast henni áður og það getur verið erfitt.“
„En Viktor er vanur þessu. Hann spilaði með Coventry og ég spilaði helling af leikjum með honum hjá Brighton. Hann veit alveg hvernig þetta virkar, og hvað má búast við frá varnarmönnum.“
White bætti við: „Ég get ekki sagt neitt neikvætt um hann, í alvöru talað. Hann er einn af þeim allra best atvinnumönnum sem ég hef æft með, hann er alveg uppi með Martin Ødegaard hvað það varðar.“