Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, lítur svo á að brotthvarf Andre Onana marki tímamót í enduruppbyggingu liðsins undir hans stjórn. Ensk blöð segja frá.
Markvörðurinn Onana, 29 ára, gengur í raðir tyrkneska félagsins Trabzonspor á lánssamningi út tímabilið.
Amorim var ósáttur við að Onana meiddist á hásin í upphafi undirbúnings tímabilsins en sérstaklega eftir að myndband birtist af honum að leika sér á leðjukenndu moldarsvæði í heimalandinu í júní.
Onana er einn af fjölmörgum leikmönnum sem Amorim hefur látið fara í sumar þar sem hann vinnur hörðum höndum að því að móta liðið upp á nýtt.
Marcus Rashford, Jadon Sancho, Alejandro Garnacho og Antony hafa allir yfirgefið félagið í sumar og vinstri bakvörðurinn Tyrell Malacia virðist á leið til Eyupspor í Tyrklandi á lánssamningi.
Amorim telur þessar breytingar nauðsynlegar til að skapa jákvæðari framtíð fyrir félagið og einbeitir sér nú að undirbúningi fyrir Manchester-slaginn sem fram fer um helgina.