Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París:
„Við lögðum mikið í leikinn en fáum ekkert úr honum, að vera einum fleiri í tuttugu mínútur að fá ekkert úr leiknum er þreytt ,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson eftir sárgrætilegt tap gegn Frakklandi í undankeppni HM í kvöld. Leikið var í París.
Um miðbik fyrri hálfleiks komst Andri Lucas Guðjohnsen inn í sendingu Michael Olise eftir frábæra pressu frá Ísaki Bergmann Jóhannessyni og skoraði. Það stefndi í að Ísland færi með forystu inn í hálfleik en þá fékk Mikael Neville Anderson dæmda á sig klaufalega vítaspyrnu. Kylian Mbappe fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Elíasi Rafni Ólafssyni.
Þrátt fyrir ágætist byrjun á seinni hálfleiknum hjá íslenska liðinu komust heimamenn yfir á 62. mínútu eftir laglegt samspil, en Mbappe renndi boltanum á Bradley Barcola sem kom honum í netið. Íslenska liðinu tókst að koma boltanum í netið í lokin, það gerði Andri Lucas aftur en var það dæmt af í VAR vegna peysutogs í aðdragandanum. Afar svekkjandi.
„Þetta er mjög soft, ég efast um að þetta hefði verið í hina áttina.“
Það dró til tíðinda í síðari hálfleik þegar Aurelien Tchouameni fékk beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Jóni Degi.
„Ég fattaði það strax að þetta væri rautt, ég fann höggið. Ég held að ég hefði sloppið vel, ég stífnaði upp í kálfann. Ég sagðist ætla að liggja aðeins því ég vissi að ég væri að fara út af ,“ sagði Jón Dagur.
Sjáðu meira hérna:
Sjáðu sóðalegt brot og verðskuldað rautt spjald – Heppni að Jón Dagur meiddist ekki illa
Viðtalið er í heild hér að ofan.