Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Ísland sýndi góða frammistöðu en tapaði á svekkjandi hátt gegn Frakklandi í 2. umferð undankeppni HM í kvöld.
Íslenska liðið var afar skipulagt fyrstu mínúturnar og stríddi Frökkunum inn á milli, þó heimamenn hafi fengið sín færi. En um miðbik fyrri hálfleiks komst Andri Lucas Guðjohnsen inn í sendingu Michael Olise eftir frábæra pressu frá Ísaki Bergmann Jóhannessyni og skoraði.
Það stefndi í að Ísland færi með forystu inn í hálfleik en þá fékk Mikael Neville Anderson dæmda á sig klaufalega vítaspyrnu. Kylian Mbappe fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Elíasi Rafni Ólafssyni.
Þrátt fyrir ágætist byrjun á seinni hálfleiknum hjá íslenska liðinu komust heimamenn yfir á 62. mínútu eftir laglegt samspil, en Mbappe renndi boltanum á Bradley Barcola sem kom honum í netið.
Það dró svo til tíðinda skömmu síðar þegar Aurelien Tchouameni fékk beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Jóni Degi Þorsteinssyni.
Íslenska liðinu tókst að koma boltanum í netið í lokin, það gerði Andri Lucas aftur en var það dæmt af í VAR vegna peysutogs í aðdragandanum. Afar svekkjandi.
Lokatölur 2-1. Frakkar eru með fullt hús eftir tvo leiki en Ísland 3 stig. Úkraína er svo með 1 stig í riðlinum, sem og Aserbaísjan.