Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Hverjum einasta leikmanni í franska landsiðinu var fagnað vel og innilega er nafn hans var lesið upp fyrir leikinn við Ísland í undankeppni HM, nema einum.
Það er búin að vera svakaleg stemning á vellinum fyrir leik, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Allir fengu frábærar móttökur en ekki Adrien Rabiot. Það var hressilega baulað þegar nafn hans var lesið.
Má það vera því hann er fyrrum leikmaðu Paris Saint-Germain og eins og gefur að skilja eru margir stuðningsmenn Frakka einnig stuðningsmenn þess liðs, sem á einmitt heimavöllinn sem leikið er á í kvöld. Var viðskilnaður Rabiot við PSG á sínum tíma ekki eins og best verður á kosið.
Þá voru viðtökur við nafni þjálfarans Didier Deschamps blendnar, en stuðningsmenn PSG eru sömuleiðis pirraðir út í hann eftir meiðsli Desire Doue og Ousmane Dembele í síðasta leik, en þeir eru leikmenn landsliðsins og PSG.