Gunnar Egill Daníelsson, blaðamður Morgunblaðsins er staddur í París til að fylgjast með landsleik Frakklands og Íslands sem fram fer í undankeppni HM í kvöld.
Frakkar koma særðir til leiks en Ousmane Dembele og Desire Doue leikmenn PSG meiddust í síðasta leik.
Gunnar Egill brosti þegar hann heyrði þarlenda blaðamenn kvarta og hugsaði út í meiðsli lykilmanna Íslands.
„Mér stökk bros þegar franskir fréttamenn kvörtuðu gagngert við Didier Deschamps, þjálfara franska karlalandsliðsins í knattspyrnu, yfir fjarveru tveggja lykilmanna. Ósjálfrátt hugsaði ég að franska landsliðið myndi spjara sig þótt tveir heimsklassaleikmenn hefðu helst úr lestinni fyrir leikinn gegn Íslandi í kvöld,“ skrifar Gunnar í Morgunblaðið í dag.
Gunnar hélt svo áfram. „Æ, æ, þurfið þið að stilla upp Bradley Barcola, Marcus Thuram, Hugo Ekitiké eða Kingsley Coman í fjarveru Ousmane Dembélé og Désire Doué?.“
Albert Guðmundsson meiddist í síðasta leik Íslands og þá er fyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson meiddur. Einnig má nefna að Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson eru frá vegna meiðsla.
„Fyrirgefið mér ef ég felli ekki mörg tár. Deschamps svaraði fréttamönnunum líka með því að benda á að Albert Guðmundsson væri fjarverandi hjá íslenska liðinu. Þá er Orri Steinn Óskarsson líka meiddur. Ég hugsa að það taki aðeins meira á Ísland að missa tvo af bestu leikmönnum sínum í meiðsli samanborið við þriðja sterkasta landslið heims,“ skrifaði Gunnar í Morgunblaðið