Nottingham Forest hefur rekið knattspyrnustjórann Nuno Espírito Santo eftir að aðeins níu mánuðir eru liðnir frá því hann tók við liðinu.
Portúgalinn, sem kom Forest í Sambandsdeildina á síðasta tímabili, var látinn taka pokann sinn seint á mánudagskvöld. Brottreksturinn kemur innan við þremur vikum eftir að Nuno viðurkenndi opinberlega að samband hans við eigandann Evangelos Marinakis væri orðið þvingað.
Leitin að nýjum stjóra er þegar hafin og nokkrir þekktir þjálfarar hafa verið nefndir til sögunnar:
Ange Postecoglou
Ástralski þjálfarinn vann Evrópudeildina með Tottenham í júní og batt þar með enda á 17 ára titlaleysi félagsins. Hann var þó óvænt rekinn innan við mánuði síðar af þáverandi stjórnarformanni Daniel Levy og er nú án starfs.
José Mourinho
„The Special One“ hefur ekki stýrt liði í ensku úrvalsdeildinni frá því hann var rekinn frá Tottenham árið 2021. Hann var nýverið látinn fara frá Fenerbahce í Tyrklandi og er því laus en ekki er ljóst hvort hann vilji snúa strax aftur í stjórastarf.
Brendan Rodgers
Rodgers er enn við stjórnvölinn hjá Celtic, en staða hans hefur veikst verulega eftir niðurlægjandi tap gegn Kairat Almaty frá Kasakstan í forkeppni Meistaradeildarinnar og umdeildan félagaskiptaglugga. Marinakis hefur lengi verið hrifinn af Rodgers og viljað fá hann til Forest.
Mauricio Pochettino
Argentínumaðurinn hefur ekki stýrt félagsliði frá því hann yfirgaf Tottenham árið 2019. Hann er nú landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, en er sagður á óskalista Marinakis.
Oliver Glasner
Stýrði Crystal Palace til sigurs í enska bikarnum á síðasta tímabili og hefur vakið athygli eiganda Forest. Samningur hans við Palace rennur út næsta sumar og samningaviðræður við félagið hafa staðið í stað.
Andoni Iraola
Þjálfari Bournemouth hefur einnig verið nefndur sem mögulegur arftaki Nuno. Hann skilaði félaginu sínum besta árangri frá upphafi í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur 40% sigurhlutfall. Bournemouth vill þó halda í Spánverjann.
Marco Silva
Silva, sem eins og Nuno er Portúgali, er einnig sagður á blaði hjá Marinakis, en hann hefur stýrt Fulham með ágætis árangri undanfarin ár.