Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Eins og flestir vita verður besti landsliðsmaður Íslands, Albert Guðmundsson, ekki með gegn Frökkum í 2. umferð undankeppni HM í kvöld. Liðið getur vel tekist á við fjarveru hans, segir Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari.
„Við vorum ekki að íhuga að kalla á neinn í staðinn. Við töldum okkur vel í stakk búna til að takast á við þessi forföll,“ segir Arnar.
Albert var frábær í 5-0 sigrinum á Aserbaísjan í Laugardalnum í 1.umferðinni en meiddist við að skora mark. Meiðslin eru ekki alvarleg.
„Við munum kannski ekki beint breyta leikkerfi en með öðruvísi leikmönnum kemur öðruvísi prófíll í stöðuna. Við getum vonandi nýtt það. Albert var til dæmis ekkert æstur í að fara inn í teiginn og skalla boltann en var frábær fyrir utan teiginn. Kannski fáum við leikmann inn sem getur gert akkúrat öfugt en þarf samt að sinna sömu skildum og Albert, eins og í varnarleiknum,“ segir Arnar.