Yeray Alvarez, miðvörður Athletic Bilbao, hefur verið úrskurðaður í keppnisbann fram í apríl 2026 eftir að hafa fallið á lyfjaprófi í kjölfar 3-0 taps liðsins gegn Manchester United í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili.
30 ára gamli varnarmaðurinn lék allan leikinn á San Mamés vellinum.
Í yfirlýsingu frá UEFA kemur fram að Alvarez hafi greinst með bannað efni í líkamanum og sé því settur í keppnisbann sem gildir fram í apríl 2026.
Hins vegar mun hann fá að snúa aftur til æfinga í byrjun febrúar sama ár, samkvæmt ákvörðun dómstólsins.
Alvarez, sem á að baki landsleiki með U21-landsliði Spánar, hefur verið fastamaður í vörn Bilbao undanfarin ár og var mikilvægur hluti af liði Ernesto Valverde á síðasta tímabili.