Dougie Imrie, þjálfari skoska liðsins Greenock Morton, hefur í einlægu viðtali rifjað upp þá 20 daga sem hann og sambýliskona hans, Lauren McCreaddie, áttu með fyrirburadóttur sinni Remi áður en hún lést.
Remi fæddist 14 vikum fyrir tímann, þann 30. júlí síðastliðinn. Þrátt fyrir erfið veikindi og margar sýkingar barðist hún af hetjuskap en lést þann 19. ágúst á sjúkrahúsinu. Hún komst aldrei heim til sín.
„Við fengum 20 ótrúlega daga með Remi. Því miður misstum við hana, litlu lungun hennar gáfust upp og hún gat ekki barist lengur,“ segir Imrie í einlægu viðtali.
„Hún er í hvíld núna, í friði. Við erum þakklát, mjög þakklát fyrir þá daga sem við fengum með henni. Hún barðist fyrir hverri mínútu sem við áttum saman.“
Dougie var í miðjum undirbúningi fyrir nýtt tímabil í Championship-deildinni með Morton þegar Lauren, 28 ára, fæddi Remi. Hann missti af fyrsta leik tímabilsins þar sem hann sat við hlið Lauren í á sjúkrahúsinu og bað til guðs um kraftaverk.
„Það er erfitt að lýsa aðstæðum á svona deild nema maður hafi sjálfur upplifað það að ganga inn á svona deild. Þetta eru stöðug hljóðmerki, vélar, tölur, lyf. Remi var að fá allt að fimm lyf í einu.. Litli líkaminn hennar var þakinn línurörum í handleggjum og fótum svo þetta magnaða heilbrigðisfólk gæti gert það sem það gerir best sem er að sjá um lítil börn.“
Þrátt fyrir að baráttan hafi verið erfið var ástand Remi oft á tíðum þannig að vonin var í brjóst foreldranna. Hún fór að þyngjast og virtist vera að ná sér, en þrjár alvarlegar sýkingar reyndust henni erfiðar.
„Við fengum þetta sérstaka augnablik, þó það hafi verið stutt. Lauren fékk aðeins að halda á henni einu sinni áður en hún var flutt á vökudeildina.“
Þjálfarinn lýsti síðustu kvöldstundunum með dóttur sinni sem mjög tilfinningaríkum og hrósaði heilbrigðisstarfsfólki í hvívetna:
„Jafnvel eftir að litla stúlkan okkar féll frá, hélt umhyggjan og stuðningurinn áfram. Þau veittu okkur dýrmætan tíma með Remi til að búa til síðustu, ógleymanlegu minningarnar.“