fbpx
Sunnudagur 07.september 2025
Eyjan

Björn Jón skrifar: Vanstillt þjóðfélagsumræða

Eyjan
Sunnudaginn 7. september 2025 16:00

Heimspekingarnir fjórir. Olíumálverk flæmska listamannsins Peter Paul Rubens frá árunum 1611–1612. Varðveitt í Palazzo Pitti í Flórens. Listamaðurinn situr sjálfur lengst til vinstri, þá kemur bróðir hans, Philip, og síðan þeir Justus Lipsius og Johannes Woverius. Í bakgrunni er brjóstmynd sem Rubens taldi vera af Seneca en sýnir þó líklega gríska skáldið Hesíódos.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér leiðast umræðuþættir ríkisútvarpsins alveg óskaplega og er líklega ekki einn um það, næg er skemmtileg þjóðmálaumræðan á miðlum víðs vegar annars staðar, ekki hvað síst á hlaðvarpsveitum, svo áhugamenn um þjóðfélagsmálin þurfa ekki að pína sig til áhorfs á dauðyflisleg Kastljós og Silfur.

Ég átti æði annríkt alla liðna viku á ferðalagi erlendis og þar með orðið enn ólíklegra að ég heyrði yfirhöfuð nokkuð af íslenskri þjóðmálaumræðu en fór vitaskuld ekki varhluta af því að því fjaðrafoki sem hlaust af samtali Þorbjargar Þorvaldsdóttur og Snorra Mássonar í Kastljósi ríkissjónvarpsins á mánudaginn var. Tilefni Kastljóssþáttarins var viðtal Þórarins Hjartarsonar við Snorra í hinum vinsæla hlaðvarpsþætti Einni pælingu (en þetta sýnir okkur hvað frumuppspretta þjóðfélagsumræðunnar er komin langt frá trénaðri ríkisstofnunni í Efstaleiti).

Margir málsmetandi menn létu ljót orð falla um Snorra í kjölfar Kastljóssþáttarins en þekkjandi Snorra veit ég að þar fer mikill öðlingur. Ég sá mig loks knúinn til að brjóta odd af oflæti mínu og hlýða á hinn margumrædda þátt.

Heilög vandlæting

Satt best að segja rímar samtalið í þættinum engan veginn við vanstillta umræðu á samfélagsmiðlum — þar er meira að segja ítrekað ýjað að einhverju sem Snorri sagði aldrei. Þvert á móti lagði hann í máli sínu áherslu á umburðarlyndi og náungakærleik. En hann var bara ekki sammála viðmælanda sínum í einu og öllu og vildi rökræða tiltekin atriði. Í því var glæpurinn fólginn. Hann var kominn inn fyrir heilög vé.

Annars virtist sannleikurinn orðið algjört aukaatriði í málinu. Engu gilti hvað Snorri sagði í þættinum – nettröllin ákváðu að þar færi óvinurinn og sumir lögðust meira að segja svo lágt að leggja til að heimilisfriður hans yrði rofinn og lumbrað á honum. Ofstopinn virtist eiga sér lítil takmörk.

Sjálfur benti Snorra á það eftir þáttinn að heilög vandlæting sú sem hér er getið staðfesti þá viðsjárverðu þöggun sem ríkir um þann málaflokk sem þarna var til umfjöllunar. Þar sé aðeins ein rétt skoðun en slíkur hugsunarháttur bælir alla æðri hugsun og er ekkert annað en andleg kúgun.

Öllu snúið á haus

Í heimspekilegum forspjallvísindum eru stúdentar gjarnan látnir lesa Frelsið eftir John Stuart Mill sem lagði áherslu á að andstæðar skoðanir yrðu að njóta fulls jafnræðis, önnur vogarskálin risi en hin félli, allt eftir atorku og snilli talsmanna stefnanna. Aðeins þannig kæmi sannleikurinn fram; hreinskiptar umræður um grundvallarrök væru forsenda sáttar og friðar í samfélaginu og svo ég vitni beint til Mills þá sagði hann hugsanafrelsi og málfrelsi vera „ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins og önnur velferð byggist á þeirri andlegu“.

Gífuryrðin í kjölfar Kastljóssþáttarins hafa varla í nokkru lotið að því efni sem þar átti að vera til umræðu, hvað kynin væru mörg og hvort menn gætu skipt um kyn og fleiri spurningum þeim líkum. Slík álitaefni þarf að vera hægt að ræða af yfirvegun og hófstillingu. Eða hví skyldu þeir hinir ofsafyllstu óttast umræðu um þessi mál? Kann að vera að röklegur grundvöllur hugmynda viðkomandi sé að einhverju marki tæpur? Eða er markmiðið beinlínis kúgun andstæðra sjónarmiða? Mannkynssagan kennir okkur að hið síðarnefnda felur í sér fráhvarf frá hinu opna og frjálslynda þjóðfélagi — því þjóðfélagi sem okkur er talin trú um að verið sé að verja. Hér er því öllu snúið á haus.

Að leita hins sanna í rökræðu

Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að rekja umfjöllun liðinnar viku. Margt vakti þar furðu, til að mynda þau orð biskups Íslands sem hann lét falla í Vísisgrein að sér væru vonbrigði að í umræddum Kastljóssþætti hefðu verið ræddar „skoðanir fólks á tilvist eins ákveðins minnihlutahóps í samfélaginu“. Nú hef ég hlýtt á þáttinn og þar dró enginn í efa tilvist eins né neins. Biskup gekk raunar svo langt að segja að umræðan í þættinum hefði ekki verið „til þess gerð að vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum“. Eiga þá þeir sem vilja rökræða þessi mál mögulega mannslíf á samviskunni? Eða hvað á biskupinn eiginlega við?

Nú þekki ég lítið til guðfræðinnar en geri ráð fyrir að til biskups veljist menn sem hafi afburðarvald á þeim fræðum. Ágústínus kirkjufaðir sagði menn skyldu kynna sér hina hlið málsins (l. audi partem alteram) og athugum að hann hefur líka haft gríðarleg áhrif á lúterska guðfræði. Þetta er regla sem breiðist út með kristninni vítt og breytt um álfuna og raunar um heiminn allan. Reglan felur í sér að ekki verður leyst úr ágreiningi nema báðir aðilar hafi haft tækifæri til að skýra málstað sinn. Í Jónsbók frá 1281 er þetta orðað svo: „Viðurmælis verður hver maður verður.“ Maðurinn hefur til að bera skynsemi og svo komast megi að niðurstöðu þarf rökræða að geta átt sér stað. Ekki hvað síst um vandasöm álitaefni.

Og umræða liðinnar viku hefur leitt í ljós að ofstopaöflin sem vilja stjórna umræðunni eira engu; skeyta hvorki um skömm né heiður, satt eður ósatt. Það var þó ef til vill til nokkurs unnið að særa þau fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir æfðu í París
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Framsókn leikur á reiðiskjálfi

Orðið á götunni: Framsókn leikur á reiðiskjálfi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Yfirburðir Samfylkingarinnar og Sósíalistaflokkurinn undir tveimur prósentum

Yfirburðir Samfylkingarinnar og Sósíalistaflokkurinn undir tveimur prósentum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Átök í þingflokki Sjálfstæðismanna – gefa höfuðborgarsvæðið upp á bátinn

Orðið á götunni: Átök í þingflokki Sjálfstæðismanna – gefa höfuðborgarsvæðið upp á bátinn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vinnslustöðin lokar fiskvinnslunni Leo Seafood og segir 50 starfsmönnum upp

Vinnslustöðin lokar fiskvinnslunni Leo Seafood og segir 50 starfsmönnum upp
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?