Antony, kantmaður Manchester United, er svo staðráðinn í að yfirgefa félagið að hann hefur flutt út úr glæsihúsi sínu og dvelur nú á flugvallarhóteli nærri Manchester Airport.
Brasilíumaðurinn hefur verið upplýstur af þjálfaranum Rúben Amorim um að hann eigi enga framtíð hjá félaginu, þrátt fyrir að hafa átt gott tímabil í láni hjá Real Betis á síðasta tímabili.
Betis er sagt komið langt í viðræðum við United um nýjan lánssamning fyrir 3 milljónir punda, sem myndi verða að kaupum fyrir 33 milljónir punda næsta sumar.
Antony virðist staðráðinn í að ganga frá skiptunum sem fyrst því hann hefur þegar flutt út úr húsi sínu í Hale, þar sem hann bjó áður með eiginkonu sinni og fjölskyldu. Í sömu götu bjó einnig Paul Pogba á sínum tíma.
Nú býr Antony með fjölskyldu sinni á hóteli sem er í aðeins fimm mínútna fjarlægð frá flugvellinum, þar sem Porsche-bifreið hans hefur verið á bílastæðinu. Gistingin kostar aðeins um 20 þúsund krónur nóttin.
Antony æfir ekki með aðalliðinu og hefur verið að æfa í litlum hópi af mönnum sem Amorim vill burt.