Gareth Southgate og Michael Carrick eru taldir líklegastir til að taka við sem næsti stjóri Manchester United samkvæmt veðbönkum.
Enskir miðlar fjalla um þetta í dag í kjölfar niðurlægjandi taps United gegn D-deildarliði Grimsby í 2. umferð deildabikarsins í gærkvöldi.
Sæti Ruben Amorim er orðið heitt. Undir hans stjórn endaði liðið í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vor og er aðeins með eitt stig eftir tvo leiki í deildinni á þessari leiktíð.
Southgate hefur ekki verið í starfi síðan hann hætti með enska landsliðið eftir EM 2024. Carrick, sem er auðvitað fyrrum leikmaður United, var þá rekinn frá Middlesbrough í sumar en hafði áður vakið jákvæða athygli fyrir starf sitt þar.
Carrick er þá vel liðinn hjá United eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari um tíma eftir að ferlinum lauk.
Næst á eftir í veðbönkum koma þeir Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, Mauricio Pochettino, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna og Kieran McKenna hjá Ipswich.