Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands, valdi fyrsta hóp sinn fyrir undankeppni HM í dag. Valið var erfitt en markmiðin eru skýr.
Ísland mætir Aserbaídsjan á heimavelli á föstudaginn í næstu viku og svo Frökkum ytra fjórum dögum síðar. Arnar er afar sáttur með hóp sinn en það var erfitt að velja hann.
„Það var bara martröð. Þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara. Það eru svo margir leikmenn sem hafa stigið upp og eru að gera góða hluti. Það er hægt að nefna endalaus nöfn og ég mun örugglega gleyma einhverjum svo ég ætla að sleppa því,“ sagði hann við 433.is á Laugardalsvelli í dag.
Arnar var spurður að því hvort komandi verkefni væri ekki sett upp á þann veg að það sé nauðsynlegt að vinna Aserbaídsjan og að það yrði bónus að fá eitthvað gegn Frökkum.
„Það er bara nákvæmlega málið. Það er erfitt að tala um skyldusigra í alþjóðafótbolta en við verðum að setja pressu á okkur að vinna Aserbaídsjan og stríða Frökkunum. Það þýðir ekki endilega að vinna þá en eiga leik sem gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið.“
Arnar tók við sem landsliðsþjálfari í byrjun árs og er að fara að stýra sínum fjórða landsleik. Þetta verður sá fyrsti á Laugardalsvelli.
„Það verður mjög stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég fór á fyrsta leikinn minn hérna 1977, það er búið að breyta miklu og völlurinn er í heimsklassa leyfi ég mér að fullyrða. Ég veit að það verður auðvelt að fylla völlinn gegn Frökkum en að hjálpa okkur gegn Aserbaídsjan væri ómetanlegt. Reynum bara að komast á HM, reynum að kýla á þetta.“
Ítarlegt viðtal við Arnar er í spilaranum. Í fyrri hlutanum er farið yfir valið á hópnum og í þeim seinni er komandi verkefni rætt.