Þó svo að Arsenal sé að klófesta Eberechi Eze fyrir framan nefið á nágrönnum sínum og erkifjendum í Tottenham er ekki víst að félagið sé hætt á félagaskiptamarkaðnum í sumar.
Eze kemur frá Crystal Palace á meira en 60 milljónir punda. Hann var á barmi þess að ganga í raðir Tottenham þegar Arsenal nappaði honum í kjölfar meiðsla Kai Havertz.
Arsenal skoðar þó enn styrkingar fram á við ef marka má fréttir og er félagið sagt hafa augastað á Malick Fofana, eftirsóttum kantmanni franska liðsins Lyon.
Þetta kemur fram í franska blaðinu L’Equipe. Fyrr í sumar hafnaði Lyon 31 milljóna punda tilboði Everton í Fofana, en félagið er talið vilja um 35 milljónir punda að minnsta kosti.
Bayern Munchen hefur þá einnig áhuga á Fofana, sem vill helst spila í Meistaradeildinni, en það er eitthvað sem bæði Arsenal og Bayern geta boðið.