Jerome Boateng, heimsmeistari með Þýskalandi árið 2014, hefur yfirgefið austurríska úrvalsdeildarfélagið LASK Linz eftir aðeins þrjá leiki á nýju tímabili og 15 erfiða mánuði með félaginu.
36 ára varnarmaðurinn, sem átti farsælan feril með Bayern München á árunum 2011–2021, samdi við LASK Linz þann 31. maí 2024 eftir að hafa verið samningslaus. Hann skrifaði undir tveggja ára samning, en honum hefur nú verið rift með gagnkvæmu samkomulagi.
Boateng lék einungis 13 leiki fyrir félagið vegna meiðsla sem háðu honum frá komu til Austurríkis.
Utan vallar hefur Boateng einnig verið í sviðsljósinu fyrir dómsmál. Nokkrum mánuðum eftir komu hans til LASK var hann fundinn sekur af þýskum dómstól fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi kærustu sinni, móður tvíburadætra hans.
Málið átti rætur að rekja til átaka í sumarfríi árið 2018, þar sem Boateng var sakaður um að kasta lampa að konunni, ásamt því að henda frystikassa í hana, slá hana og toga í hár hennar.
Stuðningsmenn LASK voru farnir að syngja úr stúkunni að Boateng hefði lagt hendur á konuna.
Í júlí 2024 var tilkynnt að Boateng þyrfti að greiða 84 þúsund pund í framlög til góðgerðarmála. Hann fékk jafnframt skilorðsbundna sekt upp á rúmlega 168 þúsund pund, sem einungis fellur til greiðslu ef hann brýtur af sér aftur.
LASK hefur ekki gefið frekari skýringar á riftun samningsins, en ljóst er að dvölin í Austurríki reyndist bæði erfið og stutt fyrir þýska varnarmanninn.