Símon Birgisson leikstýrir kolsvartri útgáfu af Dýrunum í Hálsaskógi í Menntaskóla Kópavogs
Símon Birgisson, handrits- og sýningardramatúrg í Þjóðleikhússins, þreytir frumraun sína á leikstjórasviðinu í kvöld þegar leikfélag Menntaskóla Kópavogs frumsýnir Dýrin í Hálsaskógi – Kolsvört útgáfa. Þetta er óhefðbundin uppsetning því ætlunin er að svipta hulunni af þessu sígilda barnaleikriti Torbjörns Egners og draga fram myrkari hliðar Hálsaskógar.
„Það er ansi skemmtileg forsaga að þessari uppsetningu,“ segir Símon í samtali við DV. „Þegar ég var sjálfur á mínu fyrsta ári í menntaskóla var ég svo heppinn að Stefán Jónsson var að hefja sinn feril sem leikstjóri og setti upp sína kolsvörtu útgáfu af Dýrunum í Hálsaskógi. Verkið var látið fjalla um einelti, trúarofstæki og fasisma. Þetta var mín fyrsta reynsla af leikhúsi,“ segir Símon sem lék eineltisfórnarlambið Mikka ref í þessari uppsetningu Flensborgarskóla árið 2000.
Með því að breyta dýrunum í fólk köfum við ofan í tvískinnunginn og hræsnina sem er í þessu verki.
„Þessi sýning varð svolítið „költ“ í íslensku leikhúsi. Hún hefur eiginlega eingöngu varðveist í sögusögnum en það hefur oft verið fjallað um hana í útvarpinu og margir verið forvitnir um hana. Krakkarnir í MK höfðu samband við mig og vildu endurgera þessa sýningu eftir konsepti og hugmynd Stefáns. Það hefur ekki mikið varðveist af gömlu sýningunni nema ljósmyndir, en við gerðum okkar besta,“ segir Símon.
Símon segir þó að tekist hafi að grafa upp upprunalegar upptökur Kristjáns heitins Eldjárns en hann endurútsetti alla tónlist söngleiksins fyrir leikritið fyrir fimmtán árum.
„Hugmyndin gengur út á að breyta ekki orði í handritinu en skoða undirtextann. Við leikum leikritið eins og það stendur á blaði, en leikstýrum því á nýjan hátt. Með því að breyta dýrunum í fólk köfum við ofan í tvískinnunginn og hræsnina sem er í þessu verki, skoðum eðli laganna og setjum spurningarmerki við það hvort öll dýrin í skóginum eigi hreinlega að vera vinir. Í þessari útgáfu fjallar verkið um það þegar sett eru lög sem útskúfa einum úr samfélaginu, en það er Mikki refur. Samfélagið sameinast um að taka frá honum hans lífsviðurværi,“ segir Símon.
Símon segist una sér vel í leikstjórastólnum og æfingar gangi vel. „Þetta er gríðarlega fjölbreyttur hópur af ólíkum uppruna þannig að þetta hefur vakið miklar umræður í hópnum. Það er yndislegt að vinna með krökkum á þessum aldri, sem eru að móta líf sitt og fara út í heim,“ segir Símon.
Dýrin í Hálsaskógi – Kolsvört útgáfa er sýnt í Leikhúsi Kópavogs frá 4. til 11. mars.