Jóhann Ingi Hafþórsson blaðamaður á Morgunblaðinu leggur til nokkuð róttækar breytingar á reglum í kringum knattspyrnuleiki og vill stytta framleningar.
Jóhann skrifar pistil sinn eftir bikarúrslitaleik kvenna þar sem Breiðablik fór með sigur af hólmi í framlengdum leik gegn FH.
„Úrslitin réðust í framlengingu og var hún betri en margar aðrar framlengingar. Framlenging í fótbolta er 30 mínútur og þótt hún hafi verið góð á Laugardalsvelli á laugardaginn er framlenging í fótbolta almennt allt of löng. Að spila þriðjung leiksins aftur þegar allir eru orðnir þreyttir er ekki sérlega góð hugmynd og úr takti við aðrar íþróttir,“ skrifar Jóhann í bakverði Morgunblaðsins.
„Að mínu mati væri það góð hugmynd að stytta framlengingu um helming og sleppa hálfleiknum í framlengingu.“
Hann tekur svo nokkur dæmi um framlengingar í öðrum íþróttum í grein sinni í Morgunblaðinu.
Framlenging í körfubolta er fimm mínútur, eða einn áttundi af venjulegum leiktíma.
Framlenging í handbolta er samtals tíu mínútur, eða einn sjötti af venjulegum leiktíma.
Framlenging í íshokkí er fimm mínútur, eða einn tólfti af venjulegum leiktíma.
Framlenging í amerískum ruðningi er tíu mínútur, eða einn sjötti af venjulegum leiktíma.
Jóhann segir fótboltann ekki í takt við aðrar íþróttir. „Eins og áður segir er það ekki í neinum takti við aðrar íþróttir. Bakvörður veit ekki um neinn sem er sérlega spenntur þegar framlengja þarf fótboltaleiki,“ endar Jóhann á að skrifa.