Enska kantmaðurinn Jadon Sancho hefur hafnað félagsskiptum til ítalska stórliðsins AS Roma, þrátt fyrir að Manchester United hafi samið við ítalska félagið um lánssamning með skuldbindingu um að kaupa hann á 20 milljónir punda.
Samkvæmt fjölmiðlum stóð til að Sancho færi á lán til Roma með þeirri kvöð að félagið myndi kaupa hann varanlega í lok tímabilsins. Hins vegar hafnaði leikmaðurinn sjálfur þeim möguleika og hefur því stöðvað möguleg félagaskipti til höfuðborgar Ítalíu.
Vildi Sancho fá væna summu frá United fyrir það að fara en félagið virðist ekki hafa viljað fara í þann leik. Sancho er með launapakka hjá United sem ekkert annað félag er tilbúið að borga.
Sancho, sem hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United undanfarin misseri, virðist nú bíða eftir öðrum tækifærum. Meðal áhugasamra félaga eru Juventus og Inter Milan á Ítalíu, en einnig hafa félög frá Tyrklandi og Sádi-Arabíu haft samband vegna hugsanlegra félagaskipta.
Framtíð Englendingsins er því enn óljós, en ljóst er að hann er ekki hluti af plönum Manchester United undir stjórn Ruben Amorim.