Birmingham er að reyna að fá Alex Oxlade-Chamberlain, fyrrum landsliðsmann Englands og liða eins og Arsenal og Liverpool, til sín. Frá þessu greinir Sky Sports.
Það er mikill metnaður hjá Birmingham, sem er nýliði í ensku B-deildinni. Liðið ætlar sér að gera atlögu að því að fara beint upp í ensku úrvalsdeildina í vor.
Birmingham er því enn í leit að styrkingum og gæti hinn 32 ára gamli Chamberlain reynst góður kostur. Horfir félagið þar í reynslu hans úr enskum fótbolta sem mikilvægan þátt.
Chamberlain hefur verið á mála hjá Besiktas í tvö ár og á eitt ár eftir af samningi sínum í Tyrklandi, en má hann fara frítt frá félaginu ef marka má fréttir.
Hjá Birmingham spila tveir Íslendingar, þeir Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted. Willum hefur þó aðeins spilað þrjár mínútur í fyrstu tveimur leikjum deildartímabilsins á meðan Alfons hefur verið utan hóps.