Það hefur orðið kúvending á umræðunni um danska stórliðið Bröndby á örskömmum tíma, allt í kjölfar þess að liðið sneri einvíginu gegn Víkingi við í síðustu viku.
Frederik Birk, þjálfari Bröndby, var á barmi þess að fá stígvélið í kjölfar ósannfærandi byrjunnar í dönsku úrvalsdeildinni og 3-0 niðurlægingar gegn Víkingi í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildarinnar.
Hans menn unnu hins vegar 4-0 sigur í seinni leiknum á Víkingi, og það manni færri nær allan leikinn. Í kjölfarið tók svo við sigur á Randers í dönsku úrvalsdeildinni í gær og er liðið jafnt FC Kaupmannahöfn að stigum á toppi deildarinnar.
„Frederik Birk hefur ekki yfir miklu að kvarta um þessar mundir,“ segir í frétt Bold í aðdraganda umspilseinvígis Bröndby gegn Strasbourg frá Frakklandi um sæti í Sambandsdeildinni.
„Brönbdy-vélin er farin að malla á hárréttum tíma í kjölfar þess að spilaborgin var næstum hrunin með niðurlægingunni á Íslandi,“ segir þar enn fremur.