Stjarnan hóf leik í Bestu deild karla í vor án erlends leikmanns í sínu liði en eftir sumargluggann eru þeir orðnir fjórir. Þorkell Máni Pétursson er harður stuðningsmaður Stjörnunnar og hefur áhyggjur af stöðu mála.
Stjarnan samdi við þrjá leikmenn á lokadegi félagaskiptagluggans í síðustu viku, tvo frá Síerra Leóne og einn frá Hollandi. Fyrr í sumar gekk Steven Caulker, fyrrum leikmaður Liverpool og Tottenham, til liðsins við Garðbæinga og er hann jafnframt spilandi aðstoðarþjálfari.
Eftir sigur á Vestra í gær er Stjarnan sex stigum á eftir toppliði Vals í Bestu deildinni og segir Máni að liðið hljóti að stefna á titilinn eftir vendingar undanfarinna daga.
„Stjarnan ætlaði að spila fallegan leik í sumar en hefur meira verið í því að harka stigin í gegn. Ég held að þessi sigur hafi verið mjög mikilvægur miðað við það sem hefur verið að gerast undanfarna daga í Garðabænum því ég held að þeir séu bara að stefna á það að vinna þennan Íslandsmeistaratitil. Þeir eru sjálfir komnir í bílstjórasætið með það ef þeir vinna þá leiki sem eftir eru af þessu móti,“ sagði hann eftir leik á SÝN Sport.
„Það er búið að vanrækja ákveðið innra starf í Garðabænum, þar sem ákveðnir leikmenn eru seldir út en þú hefur ekkert til að fylla þeirra skörð því þú hefur kannski ekki sinnt þínu starfi almennilega. Þarna er ég að tala um innviðina í félaginu. Það er ótrúlega dapurt því Stjarnan, ásamt Breiðabliki, hefur sennilega verið með besta unglingastarfið í gegnum tíðina. Það er ákveðin sorg að Stjarnan lendi í þeirri stöðu að þurfa að kaupa þrjá útlendinga til að kaupa inn í liðið.“
Sem fyrr segir telur Máni að nú sé komin mikil pressa á Jökul Elísabetarson og hans lið að skila árangri, annars sé erfitt að réttlæta þau kaup sem gerð hafa verið í sumar.
„Ég kalla þetta áhættufjárfestingar því ef Stjarnan vinnur ekki Íslandsmeistaratitilinn myndi ég segja að þetta hafi ekki verið nógu vel heppnað. En ef þeir ná ekki Evrópusæti þurfi menn að fara í verulega naflaskoðun og einhverjir hausar að hugsa sinn gang.“