Andrés er sagður fara illa með starfsfólk sitt og hafi meðal annars vísvitandi hent þurrkum á gólfið til þess eins að kalla þjónustustúlkur til og láta þær taka þurrkurnar upp.
Þetta kemur fram í bókinni „The Rise and Fall of The House of York“ eftir Andre Lownie.
Í nýrri heimildarmynd Channel 5, „Andrew and Fergie: The Duke and Duchess of Excess“ er fjallað enn nánar um líf Andrésar og meðal annars er rætt við Lownie sem segir meðal annars: „Andrés hefur verið sérstaklega hryllilegur við starfsfólkið, hann virðist ekki líta á það sem venjulegt fólk. Hann kemur fram við það eins og undirmenn sem þurfi að skipa fyrir. Ég held að hann sé mjög sjálfselskur og allt snýst um hann.“
Hann bætti síðan við: „Hann kallar á lífvörðinn sinn til að sækja golfkúlurnar þegar hann er búinn að skjóta þeim niður eftir vellinum, hann kallar á þjónustustúlkur, sem eru fjórum hæðum neðar, til að draga gluggatjöldin frá.“