Marco Silva er óánægður með yfirmenn sína sem hafa styrkt leikmannahóp Fulham afskaplega lítið í sumar.
Fulham hefur fengið inn einn leikmann fyrir tímabilið en það er markvörðurinn Benjamin Lecomte sem kom á frjálsri sölu.
Silva bjóst við mun meiru í sumarglugganum og vonast til að fá inn fleiri leikmenn áður en glugginn lokar í lok mánaðars.
,,Þetta eru alls ekki fullkomnar aðstæður, ég bjóst ekki við að við myndum gera svona lítið,“ sagði Silva.
,,Ég veit hvað ég vildi og hvað planið var en það varð ekkert úr því. Við þurfum að styrkja okkur, við erum fámannaðir í nokkrum stöðum.“
,,Bjóst ég við þessu? Auðvitað ekki en markaðurinn er eins og hann er.“