Oliver Heiðarsson sóknarmaður ÍBV hefur sett húsið sitt í Vestmannaeyjum á sölu en hann mun yfirgefa félagið í haust og halda til Króatíu þegar samningur hans í Eyjum er á enda.
Samkvæmt mjög öruggum heimildum 433.is hefur Oliver gengið frá samningi við NK Lokomotiva Zagreb sem leikur í efstu deild í Króatíu og mun ganga til liðs við félagið þann 1. janúar að öllu óbreyttu.
Smelltu hér til að sjá meira um fasteignina.
Oliver hefur reynst ÍBV frábærlega eftir að hann kom til félagsins frá FH árið 2023, var hann besti leikmaður liðsins í fyrra þegar liðið tryggði sér aftur sæti í efstu deild.
Oliver hefur verið eftirsóttur undanfarna mánuði en stærstu lið Bestu deildarinnar hafa reynt að kaupa hann og þá hefur fjöldi erlendra liða fylgst með framgangi hans.
Oliver er 24 ára gamall en faðir hans Heiðar Helguson átti farsælan feril sem atvinnumaður og með íslenska landsliðinu.
Hús Olivers sem hann á ásamt móður sinni, Eik Gísladóttur, í Vestmannaeyjum er staðsett í Dverghamri 2. Um er að ræða einbýlishús á einni hæð (tveimur pöllum) 128,3 fm og bílskúr 28,9 fm, samtals 157,2 fm. Húsið er steypt og byggt árið 1975.