CNN skýrir frá þessu og segir að maðurinn hafi gengið fram hjá fjórum aðvörunarskiltum og hafi að lokum endað í miðri skriðu. Grjót byrjaði að hrynja niður í kringum hann en honum tókst að komast í öruggt skjól en gat ekki komist þaðan aftur.
Hann gat hringt í neyðarlínuna og sagt að hann hefði gengið eftir hinni erfiðu gönguleið frá Passo Tre Croci til Berti via Ferrata. En hann gat ekki veitt nánari upplýsingar um staðsetningu sína.
Hann var beðinn um að halda kyrru fyrir og fjöldi fólks var sendur af stað til að leita að manninum. Í upphafi var lítið á leitinni að græða því þykk skýjahula lá yfir svæðinu en þegar þau hurfu kom í ljós að maðurinn var fastur í 2.400 metra hæð, á miðju skriðusvæði.
Þegar loksins tókst að bjarga manninum höfðu tvær björgunarþyrlur verið sendar á vettvang auk tuttugu sérhæfðra björgunarmanna.
Eins og áður sagði hunsaði maðurinn aðvörunarskilti og klifraði yfir lokanir. Göngufólk, sem hann hitti, hvatti hann til að fara ekki lengra en hann varð ekki við því.
Þetta ævintýri mannsins mun kosta hann sem svarar til um 2,2 milljóna íslenskra króna.
Upphæðin er svona há vegna þess að Bretar sögðu skilið við ESB 2020 og þurfa því að borga mun meira fyrir björgunaraðgerðir af þessu tagi en ríkisborgarar í ESB-ríkjunum.