Samkvæmt nýju reglunum verður fólki, sem á sér sögu um ofbeldisverk eða heimilisofbeldi, óheimilt að eiga skotvopn.
The Independent skýrir frá þessu og segir að reglurnar séu tilkomnar vegna þrýsting frá dánardómsstjórum og baráttufólki fyrir hertum reglum. Það eru voðaverk, sem áttu sér stað í Woodmancote í Sussex og Keyham, sem voru kveikjan að baráttunni fyrir hertum reglum.
Samkvæmt nýju reglunum verða lögreglumenn að yfirheyra maka og aðra sem búa á sama stað og sá sem sækir um skotvopnaleyfi.
Markmiðið með þessu er að reyna að koma auga á merki um heimilisofbeldi eða annað sem gerir að verkum að umsækjandinn teljist óhæfur til að eiga skotvopn. Lögreglan verður einnig að gera ítarlegar kannanir til að tryggja að þeir sem eru á skrá fyrir ofbeldisverk, fái ekki skotvopnaleyfi.
Eins og fyrr sagði, þá er þetta gert vegna skelfilegra mála. Annað átti sér stað í Keyham í ágúst 2021. Þá skaut Jake Davidson, sem átti skotvopn þrátt fyrir að eiga sér sögu um fjölda ofbeldisverka, móður sína og fjóra aðra til bana, þar á meðal þriggja ára stúlku, í átta mínútna langri skotárás. Hann tók að lokum eigið líf.
Hitt málið varðar Robert Needham, sem skaut unnustu sína, Kelly Fitzgibbons og dætur þeirra, Ava og Lexi, til bana á heimili þeirra í Woodmancote 2020. Hann fékk skotvopnaleyfi þrátt fyrir að hafa játað að hafa leynt upplýsingum um þunglyndi hans og stress.
Samkvæmt nýju reglunum munu sannanir um óheiðarleika, þar á meðal að hafa leynt sjúkrasögu, einnig vinna gegn umsækjendum.