Lögreglan í Kent á Englandi hefur handtekið þrjá unglinga vegna gruns um morð á manni í strandbænum Leysdown-on-Sea. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar.
Lögreglan var kölluð að heimili í strandbænum á sunnudagskvöld. Greint var frá því átök hefðu brotist út í litlum hópi fólks og maður hefði orðið fyrir alvarlegum áverkum.
Skömmu eftir að lögregla og sjúkralið komu á vettvang var maðurinn úrskurðaður látinn, en hann var á fimmtugsaldri.
Þrjú eru í haldi lögreglu, grunuð um að hafa banað manninum, 16 ára stúlka og tveir piltar, 14 og 15 ára.
Í tilkynningu lögreglu kemur jafnframt fram að hún óskar eftir að möguleg vitni að atburðum gefi sig fram, eða hver sá sem kann að hafa upplýsingar um málið.