Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann unnu ansi sterkan 0-2 sigur á Hacken í gærkvöldi, þar sem Sævar Atli Magnússon var hetjan og gerði bæði mörkin.
Liðin áttust við í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og fór leikurinn fram í Svíþjóð. Útlitið er því gott fyrir Brann fyrir seinni leikinn í Noregi.
Silas Andersen, þjálfari Hacken, taldi sína menn ekki hafa verið lakari aðilann í leiknum þrátt fyrir tap. Freyr var spurður út í ummæli hans eftir leik.
„Silas, þú ert frábær manneskja og þjálfari, en mér er alveg sama hvað þér finnst. Við unnum 2-0 og tökum forystuna til Bergen,“ sagði Íslendingurinn.
Liðin mætast aftur í Noregi næstkomandi fimmtudag.