Dagur B. Eggertsson, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri, segir að það ætti að vera flestum fagnaðarefni að forseti framkvæmdastjórnar ESB hafi sótt Ísland heim. Undanfarið hafi ríki ESB snúið bökum saman innan NATO vegna breyttrar stöðu í öryggis- og varnarmálum. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu segir Dagur dapurlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við heimsókninni:
„Breytt umhverfi í öryggis- og varnarmálum birtist víða. Margir okkar helstu bandamanna innan NATO, sem standa utan ESB, hafa að undanförnu gert samninga við sambandið á sviði öryggis- og varnarmála. Þeirra á meðal eru Noregur og Kanada. Það hefur verið heldur sorglegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar á þingi við því að íslenskra hagsmuna sé gætt á sama hátt. Það virðist mjög viðkvæmt í pólitíkinni að stíga skref til nánara Evrópusamstarfs, utan ESB, sem er þó bæði eðlilegt og rétt í ljósi stöðunnar. Evrópa og ESB deilir í flestu gildum og lífssýn með okkur Íslendingum. ESB er nú sterkasti málsvari alþjóðalaga, viðskiptafrelsis, fullveldisréttar ríkja og hefðbundinna reglna í samskiptum þjóða sem við Íslendingar eigum allt undir. Þá má ekki gleyma því að til Evrópu seljum við yfir 70% af útflutningsvörum okkar. Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður.“
Um þróun mála innan NATO undanfarið segir Dagur:
„Ýmsir spáðu jafnvel endalokum bandalagsins fyrir örfáum mánuðum. Ástæðan var meðal annars ýmsar yfirlýsingar og beinar og óbeinar hótanir Bandaríkjaforseta gagnvart Kanada og Grænlandi. Ljóst er að ekki hefur öllum spurningum verið svarað þótt bandalagið hafi þétt raðirnar á nýafstöðnum leiðtogafundi. Á honum varð endanlega ljóst að þjóðir Evrópu hafa tekið höndum saman um að efla varnir sínar, auka fjármagn til varnarmála og axla nú meiri ábyrgð á stuðningi við Úkraínu. Hitt er óbreytt. NATO verður áfram sameiginlegur meginvettvangur varnarsamstarfs þótt Evrópa og ESB muni hafa ríkara hlutverki að gegna.“
Í lok greinar sinnar bendir Dagur á að þjóðin muni eiga síðasta orðið um aðild Íslands að ESB og framhald aðildarviðræðna:
„Um það er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins skýr. Um þá nálgun ætti að geta skapast víðtæk sátt. Og við blasir að margt talar fyrir því að spyrja þjóðina fyrr en seinna.“