Nicolas Jackson gæti þurft að íhuga eigin framtíð eftir komu Joao Pedro til Chelsea en þetta segir fyrrum leikmaður liðsins, William Gallas.
Gallas sá Pedro skora tvennu gegn Fluminense í undanúrslitum HM félagsliða en hann var að byrja sinn fyrsta leik fyrir Chelsea eftir komu frá Brighton.
Gallas telur að staða Jackson hjá Chelsea sé ekki góð í dag en hann hefur verið aðalmaðurinn í fremstu víglínu undanfarin tvö ár.
,,Frammistaða Pedro gegn Fluminense setti mikla pressu á Nicolas Jackson,“ sagði Gallas við Genting Casino.
,,Ég held að það gæti endað sem vandamál í byrjun tímabils. Þegar þú ert númer eitt hjá þínum þjálfara þá eru dyrnar opnar og þú færð traustið.“
,,Eftir það þá viltu læsa þeim dyrum svo enginn annar komist inn. Það er það sem er að gerast hérna, ég held að Nicolas hafi skilið hurðina eftir opna.“