Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Alisha Lehmann er ein stærsta stjarna fótboltans. Hún er hluti af svissneska landsliðinu sem mætir því íslenska í 2. umferð riðlakeppni EM í kvöld.
Það er allt undir í kvöld, en bæði lið töpuðu fyrsta leik sínum á EM. Lehmann kom ekki við sögu gegn Noregi í fyrsta leik og er ólíklegt að hún byrji í kvöld.
Lehmann er ekki síður vinsæl utan vallar og með tugi milljóna fylgjenda á samfélagsmiðlum, það mesta af öllum knattspyrnukonum.
Hún hefur mikið verið milli tannanna á fólki og mátt þola gagnrýni fyrir hitt og þetta, til dæmis að nota of mikinn andlitsfarða. Móðir hennar, Sarah Guggisberg, sá sig knúna á dögunum til að koma dóttur sinni til varnar.
„Hún hefur spilað í stórum deildum í mörg ár. Það er ekki af því að hún notar mikinn andlitsfarða. Þið þekkið hana ekki neitt og vitið ekki hversu yndisleg manneskja hún er,“ sagði hún.
Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.