Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það er engin þolinmæði fyrir neinu rugli innan raða KSÍ, sér í lagi þegar farið er á stórmót. Þetta segir Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá sambandinu, í samtali við 433.is.
Íslenska kvennalandsliðið er nú statt á EM í Sviss ásamt stórum hópi starfsfólks, sem telur á þriðja tug.
„Alveg frá því við lögðum af stað í þetta verkefni 23. júní, fórum til Serbíu, hefur verið ótrúlega góður andi í öllum, leikmönnum og starfsliðinu. Það skiptir náttúrulega sköpum. Við erum með ákveðnar reglur um það að ef þú passar ekki inn í það sem við erum að gera máttu bara fara heim,“ sagði Jörundur.
Hann var svo spurður nánar út í þessar reglur. „Ég er með svokallaðar FIFO-reglur, sem eru fit in or fuck off. Það er nú bara þannig, þarf ekki að vera flókið. Það er ekki svigrúm fyrir neitt rugl og mér finnst fólk einbeitt á að gera þetta vel.“
Ísland mætir gestgjöfum Sviss í öðrum leik sínum á riðlakeppni EM í kvöld. Bæði lið eru með bakið upp við vegg eftir tap í fyrstu umferð. Stelpurnar okkar töpuðu gegn Finnum og Sviss gegn Noregi.