Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það er óhætt að segja að stemningin í kringum íslenska kvennalandsliðið fyrir fyrsta leik EM hafi verið mikil og er ekki við öðru að búast en að bara eigi eftir að bæta í.
Fjölskyldur, vinir og fleiri standa við bakið á sínum konum í liðinu og má segja að einstök fjölskyldustemning ríki í kringum íslenska liðið.
„Við erum að sjá mikið af fjölskyldum koma út og marga sem tengjast leikmönnum, ekki bara nánasta fjölskylda heldur ömmur og afar, frænkur og frændur fjarskildar frænkur líka,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, við 433.is.
„Það er mikill áhugi á liðinu og fólk er til í að leggja á sig ansi margt til að styðja við bakið á þeim,“ sagði hann enn fremur í hlaðvarpsviðtalinu, sem hlusta má á hér neðar í heild.
Ísland tapaði fyrsta leik EM 1-0 gegn Finnlandi og verður helst að vinna gestaþjóðina Sviss í leik tvö annað kvöld.