Alls 47 aðilar létu gera að sárum sínum eftir að árásarmaður ók á hóp fólks sem mætt var að fagna góðu gengi Liverpool í gær.
27 af þessum aðilum voru fluttir á sjúkrahús og fjórir af þeim eru enn alvarlega slasaðir. Fjögur börn urðu fyrir árás mannsins.
Breskir fjölmiðlar greina frá því að 53 ára hvítur, breskur karlmaður, sem er frá Liverpool-svæðinu, hafi verið handtekinn vegna gruns um aðild að málinu. Ekki liggur fyrir hvort hann ók bílnum. Lögregla hefur staðfest aldur og uppruna hins handtekna.
Árásin átti sér stað þegar skrúðganga Liverpool var að taka enda, fögnuðu stuðningsmenn með leikmönnum liðsins eftir að hafa orðið enskur meistari.
Maðurinn ók af stað í gegnum hópinn en samkvæmt Daily Mail er grunur um að hann hafi verið ölvaður þegar verknaðurinn átti sér stað. Sást maðurinn yfirgefa nærliggjandi knæpu skömmu áður.
Daily Mail segir það stórt spurningamerki við skipulag lögreglu að maðurinn hafi getað keyrt bílnum af stað þegar um milljón manns voru þarna komnir saman.
View this post on Instagram