Nýir eigendur Fótbolta.net hafa farið í samstarf með erlenda veðbankanum EpicBet sem hefur verið að koma sér grimmt á framfæri hérlendis síðustu mánuði.
Auglýsingar frá erlendum veðbönkum eru ekki leyfðar í íslenskum fjölmiðlum en duldar auglýsingar hafa birst reglulega á vefnum vinsæla síðustu vikur.
Fótbolti.net textalýsir öllum leikjum í Bestu deild karla og þar hefur undanfarið mátt sjá hvernig fólki er bent á stuðla hjá EpicBet og veðmál sem hægt er að gera þar. Flestar af þeim færslum sem birtar hafa verið á vefnum eru undir nafni Mate Dalmay sem er stærsti einstaki eigandi Fótbolta.net.
„Tvöfaldur séns FH/jafntefli er í boði á stuðlinum 1,72 á Epic,“ segir í færslu fyrir leik FH og Breiðabliks sem fram fór á sunnudag.
Mate fór fyrir hópi sem keypti Fótbolta.net af Hafliða Breiðfjörð í vor en hann var stofnandi og eigandi vefsins um margra ára skeið. Undir hans stjórn birtust svona auglýsingar ekki á vefnum.
Epicbet er nýlegur alþjóðlegur veðbanki sem hefur rutt sér leið inn á íslenskan markað og verið áberandi undanfarið þar sem mörg stór nöfn í íslensku samfélagi virðast tengjast veðbankanum. Veðbankinn var með viðburð í kringum leik Manchester United og Tottenham í síðustu viku sem var meðal annars í samstarfi við vefinn vinsæla.
Nokkuð hefur verið um að erlendir veðbankar komi sér í umræðuþætti tengda íþróttum en það telst ný nálgun að vefsíða eins og Fótbolti.net sé í samstarfi við erlendan veðbanka.
Fjölmiðlanefnd hefur beitt sér gegn veðmálastarfsemi í hlaðvörpum. Sýn fékk sekt upp á eina milljón króna vegna auglýsinga Coolbet sem birtust í Þungavigitinni árið 2021.
Nokkuð ákall hefur verið eftir því að ríkisvaldið breyti lögunum sem nú eru í gildi en hingað til hefur ekki verið vilji fyrir því á Alþingi.
Meira:
Þetta eru þeir sjö aðilar sem komu að því að kaupa Hafliða og Magnús út