Alejandro Garnacho hefur áhuga á að spila með Liverpool samkvæmt afar óvæntum sögusögnum sem eru á kreiki í spænskum fjölmiðlum.
Garnacho er sennilega á förum frá Manchester United. Hann hefur farið mikinn undanfarið og lýsti yfir ósætti með að byrja ekki úrslitaleik Evrópudeildarinnar, sem tapaðist gegn Tottenham á dögunum.
Spænskir miðlar segja argentíska kantmanninn dreyma um að fara til Real Madrid, en alls ekki er víst að félagið hafi áhuga á að fá hann.
Næstbesti kosturinn að hans mati eru nýkrýndir Englandsmeistarar Liverpool, en þar er sama sagan. Afar óvanalegt er að menn skipti þarna á milli.
Chelsea og Napoli hafa einnig verið nefnd til sögunnar og verða að teljast líklegri áfangastaðir fyrir Garnacho.
Talið er að United vilji um 60 milljónir punda fyrir kappann, eigi félagið að selja í sumar.