Í Morgunblaðinu í dag er rætt við nokkra forsvarsmenn íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu sem segja að upplifun stuðningsmanna hafi breyst til hins betra og áfengissala hafi ekki valdið vandræðum.
Einn þeirra er Pálmi Rafn Pálmason, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og núverandi framkvæmdastjóri KR. Hann segir að áfengissala hafi ekki valdið neinum vandræðum og hann hafi raunar ekki heyrt af vandræðum hjá öðrum félögum. Bendir hann á að sala á áfengi skili afleiddum tekjum.
„Eftir að við fórum að selja áfengi hefur fólk verið að mæta fyrr á leikina og fær sér hamborgara og svo einn eða tvo bjóra. Við erum ekki að sjá það að fólk mæti á leiki til þess að fara á húrrandi fyllerí,“ hefur Morgunblaðið eftir Pálma.
Í sama streng taka þeir Sæmundur Friðjónsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA. Bendir Sævar til dæmis á að veitingasala skili meiri tekjum en miðasalan. Hann segir þó mikilvægt að áfengissala fari fram á skilgreindum svæðum.
Málið kom til umræðu í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is þar sem Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfubolta, var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar.
Sjá einnig: Segir fólk gera allt of mikið úr stóra bjór-málinu – „Eins og fólk megi ekki sjá glas með áfengi í“
„Þetta truflar mig algjörlega ekki neitt. Ég hef verið að fara á íþróttaviðburði undanfarnar vikur og hef glaður farið með plastglasið í mitt sæti. Ég er ekki að fara á neitt fyllerí,“ sagði Rúnar meðal annars og bætti við:
„Mér finnst fólk gera of mikið úr þessu. Það er eins og fólk megi ekki sjá glas með áfengi í. Þá þyrftir þú að banna ansi marga staði. Þetta dregur fleiri á völlinn, þetta er tekjustofn fyrir félögin. Við ættum að leita leiða til að láta þetta ganga upp.“